Samtök um lýðræði og almannahag

Hægri grænt – er það hægt?

Grein þessi var skrifuð í aðdraganda síðustu kosninga og birt í Morgunblaðinu í mars 2007.

Málefni umhverfis- og náttúruverndar hafa verið fyrirferðarmikil í stjórnmálaumræðu að undanförnu. Það er ekki að ósekju þar sem þjóðin, og þar með þú lesandi góður, stendur á tímamótum varðandi framtíðarútlit landsins, fyrirkomulag samfélagsins, stefnu í atvinnumálum og ekki síst varðandi framtíðar fyrirkomulag eignaréttar á auðlindum og náttúru landsins. Það þýðir í raun hver mun hafa “eignarétt” á framtíð sjálfs Íslands.

Það hefur verið dapurlegt að sjá undanfarin ár hvernig gamaldags hugsun byggð á forn-Lútherskum vinnusiðferðis-Kalvínisma hefur damlað móti þróun inn í nútímsamfélagið og streitist rammt við að telja landsmönnum trú um að eina færa leiðin sé atvinnu uppbygging í þágu erlendra risafyrirtækja sem menga andrúmsloftið, bæina, náttúruna og hugi manna auk þess að eyðileggja, að eilífu, stóran hluta af ómetanlegri náttúru landsins.

Sá firrti dans í kringum gullkálfinn sem stóriðjustefnan er hefur leitt marga hægrimenn til að staldra við og spyrja hvort rétt sé að farið. Þeir vita sem er að stóriðjustefnan er að inntaki Stalínísk miðstýring drifin áfram af ríkisvaldinu með erlendu lánsfé og gerð, að undanförnu til að leiðrétta afleiðingar kvótakerfisins á Austfjörðum, en til næstu ára til þess að spýta hagkerfinu áfram í blekkingar eltingarleik við hagvöxt sem þegar upp verður staðið er minni en enginn vegna aukins fólksfjölda og stóraukinna vaxtaútgjalda almennings og fyrirtækja.

Sú hrópandi þögn sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur viðhaft á undanförnum árum varðandi umhverfis- og náttúruvernd og þær staðföstu yfirlýsingar formanns og varaformanns flokksins varðandi áform um enn frekari og kerfisbundnari náttúrueyðingu og mengun vekja ugg í brjósti margra flokksmanna. Hafa sumir þeirra haft uppi varnaðarorð til flokksins og hafa jafnvel reynt af veikum mætti að brydda upp á leiðum sem ásættanlegar gætu verið til að aðlaga flokkin að þessum brýnu málefnum.
Það er hins vegar til fjöldi sjálfstæðismanna sem hefur gefist upp á stefnu flokksins í þessum málaflokki og ákveðið að kjósa aðra flokka eða hafa reynt að vinna að framgangi “hægri-græns” framboðs, m.a. í gegnum Framtíðarlandið. Þessir menn gera sér nú flestir grein fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn er í raun ofurseldur öfgafullri kapítalískri hugsjón sem í blindni setur ekki bara flest, heldur öll atriði mannlífsins undir mælistiku arðsemi og að í slíku umhverfi er að sjálfsögðu ekkert pláss fyrir almannahag hvað þá heldur fegurð. Umhverfis- og náttúruvernd eiga einfaldlega ekki samleið með núverandi hugsjónum flokksins og forystu hans og það er rökleg þversögn að ætla sér að vera í Sjálfstæðisflokknum og jafnframt að ætlast til þess að umhverfis- og náttúruvernd séu þar á dagskrá. Veikburða tilraunir sumra flokksmanna m.a. með tilvísunum til stöðu einkeignaréttar á landi, gera það fullljóst að umhverfis- og náttúrvernd eins og hún er almennt hugsuð, og þarf að vera hugsuð, á akkúrat enga samleið með Sjálfstæðisflokki dagsins í dag.

Það er fullljóst okkur sem höfum skynbragð á málaflokkinn og vitum hvað er í húfi, að það að skipta um skoðun í einstökum tilvikum er ekki nóg heldur þarf öll hugsun um umhverfis- og náttúruvernd að byggjast á nálgun við málaflokkin á hans eigin forsendum en ekki á forsendum einkaeignaréttar og/eða markaðsverðs þess sem fer til spillis. Það að málverkið af Monu Lisu sé í einkaeigu réttlætir það að sjálfsögðu engan vegin að myndin sé eyðilögð og það sama á við um náttúru Íslands. Einkaeignaréttur, markaðshagkerfi og hagfræði geta vissulega styrkt, stýrt og leiðbeint almennri hagsæld í farsælan farveg í mörgum og jafnvel í meirihluta þeirra viðfangsefna sem samfélag okkar stendur frammi fyrir.

Þegar kemur að eyðileggingu lands eða útrýmingu náttúru eru fræðin okkar Illuga hins vegar gagnslaus. Þó hagfræðin nýtist að ákveðnu marki við verðlagningu á mengun þá eiga einkaeignarétturinn og frjálsu viðskiptin einfaldlega ekki við þegar kemur að verndun umhverfis og náttúru.

Sú stefna núverandi ríkisstjórnar og sú hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins að framselja allar auðlindir landsins í enn frekari mæli til örfárra einkaaðila er ekki í anda íhaldsstefnu, ekki í anda markaðsbúskapar og er ekki almannahagur. Hún er stefna í anda botnlausrar græðgi flokkseigendafélaga sem svífast einskis og er í raun framsal á lífinu sjálfu. Þeir ótal nytsömu sakleysingjar sem hittast brátt undir merkjum Sjálfstæðisflokksins á landsfundi munu ekki geta breytt því. Sú stefna mun þegar upp er staðið eyðileggja til frambúðar möguleika afkomenda okkar til heilbrigðs lífs í heilnæmu og fögru umhverfi.

Það er því rétt að allir s.k. hægrimenn meira en staldri við, þeir þurfa að stoppa og ákveða hvert skal halda. Hugsjón sem felur í sér umhverfis- og náttúruvernd þarf alls ekki að vera andstæð íhaldstefnu, hún er í raun alvöru íhaldsstefna og góð stefna. Slík hugsjón á hins vegar enga samleið með þeim eyðingaröflum sem nú ráða ríkjum.

Hægri grænt – er það hægt? Já, vissulega. Það er bara ekki hægt með núverandi ríkisstjórn, eða Sjálfstæðisflokki.

Höfundur er hagfræðingur

Færðu inn athugasemd »

Engar athugasemdir ennþá.

RSS feed for comments on this post. TrackBack URI

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

Bloggaðu hjá WordPress.com.