Samtök um lýðræði og almannahag

Hálfsannleikur í stjórnsýslunni

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 1. október, 2007.

Stjórnsýslan á Íslandi, þ.e. sá hluti hins opinbera sem að öllu jöfnu er kallað kerfið, hefur að undanförnu verið í fréttum vegna Grímseyjaferjunnar.  Málið hefur þótt hið versta og brigslyrði gengið á víxl í flótta embættismanna og ráðherra undan ábyrgð í málinu.  Málið hefur vakið athygli margra ekki síst vegna þess að fyrir okkur sem horfum á þetta mál utan frá, þá er næsta ógerlegt að festa hönd á hver ber ábyrgðina og hvar sannleikurinn í málinu liggur.  Niðurstaðan er sú að það virðist sem að allir sem að málinu koma segi aldrei alveg allan sannleikann, en þó með þeim hætti að ekki er auðvelt að beinlínis sanna upp á menn ósannindi. Málið mun svo lognast útaf og skattborgarar landsins blæða fyrir.

Fyrir aðila málsins aðra en hina almennu skattborgara, sem og fyrir kerfið í heild er þetta að sjálfsögðu óska-niðurstaða þar sem enginn verður dreginn til ábyrgðar og stjórnsýslan rúllar áfram óáreitt.  Einu sinni enn.
Það sem hefur hins vegar gerst er eitthvað sem er nánast daglegt brauð í íslenskri stjórnsýslu en það er að enginn hefur sagt alveg ósatt, þ.e. logið, en enginn hefur sagt allan sannleikann heldur.  Það sem í daglegu tali er kallað hálfsannleikur leiðir orðræðuna og er að því er virðist orðin að almennri leikreglu og boðorði dagsins við framsetningu á upplýsingum og það ekki bara í stjórnsýslunni heldur að því er virðist í allri almennri umræðu.

Höfundur þessarar greinar hefur starfað innan stjórnsýslunnar í áratug og er nú vitni að því hvernig eitthvað sem er kallað “hagræðing” í stjórnsýslunni, en er í raun er breyting til hins verra, er réttlætt með nákvæmlega sömu aðferðum og lýst er hér að ofan.  Fjármálaráðherra hefur með samþykki ríkisstjórnarinnar ákveðið að leggja niður Lánasýslu ríkisins og færa verkefni hennar til Seðlabankans.  Orðalagið í tilkynningu ráðuneytisins er hæfilega óljóst og vísað til “breytinga sem hafa orðið í íslensku fjármálaumhverfi og stöðu ríkisins á lánamarkaði …. framkvæma með hagkvæmari hætti …. í Danmörku og Noregi sjá seðlabankar um….”

Nú er Lánasýslan e.t.v. ekki sú stofnun sem í augum almennings eða þingmanna er hvað mest “sexí” hvað varðar starfsemi, umsvif eða stærð en hún gegnir eigi að síður mikilvægu hlutverki í því að sjá um innlendar lántökur ríkisssjóðs, ríkisábyrgðir á lánum og s.k. endurlán ríkissjóðs.  Mikilvægið er ekki síst fólgið í því að hvert prósent í lækkuðum lántökukostnaði ríkisins og stofnana þess getur jafngilt milljarða sparnaðaði á hverju ári fyrir ríkissjóð og þar með fyrir skattborgarana en þess má geta að heildarskuldir ríkissjóðs voru um 282 milljarðar um mitt ár 2007.  Því til viðbótar námu ábyrgðir ríkisins á lántökum stofnana þess um 755 milljörðum.  Það er því talsvert í húfi.

Úti í hinum stóra heimi þar sem fyrirkomulag ríkisfjármála eru eitt af viðfangsefnum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (IMF) og OECD hafa samtökin hvor um sig unnið ítarlegar rannsóknir á fyrirkomulagi ríkisfjármála aðildarríkjanna og gefið út leiðbeinandi reglur um s.k. “besta fyrirkomulag” (e. best practices) á fyrirkomulagi ríkisfjármála.  Þar er niðurstaðan ótvírætt sú að lánamálum ríkissjóða sé best fyrirkomið í sjálfstæðum stofnunum sem starfa í anda fjármálastjórnunar og að skuldastýring ríkissjóða, ríkisábyrgðir og jafnvel eignastýring ríkissjóða sé í raun hrein fjármálastarfsemi sem sé best komið utan viðkomandi fagráðuneytis og/eða annarra stofnana ríkisins. 

Þess má geta að Ísland á aðild að báðum þessum stofnunum og fylgist vel með og tekur þátt í starfi þeirra.  Ísland á einnig aðild að s.k. Sérfræðinganefnd OECD um lánamál opinberra aðila (OECD Working Party on Governement Debt Management, WPDM) og hafa Fjármálaráðuneytið, Lánasýslan og Seðlabankinn tekið virkan þátt í umræðum og stefnumótun innan nefndarinnar og sent erindreka á fundi hennar árlega í um áratug.

Það skýtur því ansi skökku við að Ísland kljúfi sig með þessum hætti út úr starfi Sérfræðinganefndarinnar og stefni í einhverja sér íslenska átt og á skjön við alþjóðasamfélagið, svo ekki sé talað um þá tugmilljóna sóun á skattfé sem hefur átt sér stað vegna ferðakostnaðar á fundi þessa í gegnum árin hvers afrakstri er nú einfaldlega fleygt.  Ákvörðun ráðuneytisins var kynnt Lánasýslunni eftir á og er fátæklegum rökum ráðuneytisins var mótmælt með skírskotun til ofanritaðs starfs WPDM og þess besta fyrirkomulags sem þar er lagt til, var starfsmönnum stofnunarinnar einfaldlega tjáð að þar væri um þeirra persónulegu skoðun að ræða.

Í fréttatilkynningu ráðuneytisins þann 4. september síðastliðinn er svo gripið til hins gamalkunna hálfsannleika og vísað m.a. til fyrirkomulags lánamála í nágrannalöndunum og Danmörk og Noregur tekin sem dæmi.  Kjarna málsins er samt sleppt en hann er sá að hvergi annars staðar innan OECD er lánsfjármálum komið fyrir með þessum hætti. Ríkissjóður Noregs hefur ekki þurft á lánsfé að halda í á þriðja áratug sem er einsdæmi í heiminum og því er hann alls ekki sambærilegur við stöðu íslenska ríkisins né nokkura annarra ríkja í heiminum. Hvað Danmörku varðar þá er það vissulega rétt að lánamál danska ríkisins eru innan veggja danska seðlabankans en þar eru þau kyrfilega aðskilin frá annarri starfsemi og með allt öðrum hætti en fyrirhugað er hér á landi.  Þess utan, sem er mikilvægast, þá notar OECD þetta fyrirkomulag lánsfjármála í Danmörku sem dæmi um hvernig hlutirnir eigi ekki að vera  þegar kemur að ríkisfjármálum.

Hér er því miður um að ræða enn ein stjórnsýslumistök sem munu á endanum reynast dýrkeypt.  Fyrirkomulag ríkisfjármála verður fyrir vikið ótrúverðugt þar sem ekki er fylgt besta fyrirkomulagi og fordæmi flestra annarra þróaðra þjóða.  Seðlabankinn mun glata enn frekar trúverðugleika vegna tilburða til að hræra saman ríkisfjármálum, ríkisábyrgðum, peningamálastjórninni og viðskiptum á markaði.  Þar á bæ verða það starfsmenn sama sviðs sem sjá um ráðgjöf varðandi innlendar og erlendar lántökur ríkisins, eftirlit og ráðgjöf varðandi ríkisábyrgðir og endurlán, viðskiptavakt á innlendum og erlendum lánum ríkissjóðs, alla starfsemi bankans á innlendum fjármálamarkaði auk þess að taka ákvarðanir um stærð og ávöxtun gjaldeyrisforðans.  Í opnu hagkerfi eins og því íslenska skarast ákvarðantaka varðandi öll þessi atriði mikið, það mikið að eitt hefur óumflýjanlega áhrif á annað.  Því glatast ekki aðeins nauðsynlegur trúverðugleiki í ásýnd heldur einnig nauðsynlegur trúverðugleiki í reynd.

Hvað rökin varðar þá er eins og áður sagði um að ræða nánast daglegt brauð í íslenskri stjórnsýslu og víðar, þar sem enginn hefur sagt alveg ósatt en enginn hefur sagt allan sannleikann heldur.  Leikreglan er hálfsannleikur sem settur er fram í blekkingarskyni af hálfu viðkomandi, oftar en ekki saminn af fyrrverandi fréttamönnum og varðhundum fjórða valdsins.  Slíkt er algengt og líklega oftast allsráðandi þegar um er að ræða fréttatilkynningar hagsmunahópa, félagasamtaka fyrirtækja og stjórnmálaflokka.  Slíkt gildir einnig því miður oft um akademískar rannsóknir og opinbera tölfræði.  Það er hins vegar grafalvarlegt mál ef stjórnsýslan, að frumkvæði ráðherra, gengur fram með sama hætti, og það reglubundið.  Það mun áður en varir hafa slæmar afleiðingar.  Afleiðingar sem auðvelt er að gera sér í hugarlund en of langt og leiðinlegt mál er að rekja hér.  Áhugasömum er þó vísað í nýlegt kver bandaríska heimspekingsins Harry G. Frankfurt “On Bullshit” þar sem þessari nálgun við sannleikann og afleiðingunum eru gerð góð skil.  „On bullshit“, er knöpp lýsing á muninum á lygi og þvættingi (á ensku: bullshit). Frankfurt segir að lygarinn viti hver sannleikurinn sé, annars gæti hann ekki farið á svig við sannleikann, semsagt logið. Þeim sem beitir þvættingi er aftur á móti snöggt sama hver sannleikurinn er. Það gildir hann einu. Höfuðmálið er að staðhæfa – burtséð frá staðreyndum.
Þvættingur er óhjákvæmilegur þegar menn finna sig knúna til að tjá sig um málefni sem þeir vita hvorki haus né sporð á. Þetta á sérstaklega við um menn sem halda að lýðræðið krefjist þess að þeir hafi skoðanir á öllum sköpuðum hlutum. Og þvættingi fylgir gjarnan sú sannfæring að í raun og veru sé aldrei hægt að komast að hinu sanna um nokkurn hlut – fyrir öllu sé að standa fast á skoðunum sínum. Af þessum ástæðum er þvættingur mun skæðari óvinur sannleikans en lygin, segir Harry G. Frankfurt. Honum er ég sammála.
Höfundur er hagfræðingur og deildarstjóri ríkisábyrgða hjá Lánasýslu ríkisins.

Færðu inn athugasemd »

Engar athugasemdir ennþá.

RSS feed for comments on this post. TrackBack URI

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

Bloggaðu hjá WordPress.com.