Samtök um lýðræði og almannahag

Lyfjakostnaður á Íslandi

Grein þessi birtist í Morgunblaðiu í nóvember 2007.

Lyfjakostnaður á Íslandi er enn eina ferðina til umfjöllunar og er það með ólíkindum að svo einfalt mál með svo augljósa lausn skuli endalaust vefjast fyrir stjórnendum sjúkrahúsa og heilbrigðsráðherrum. Staða þessara mála er til skammar og risavaxin skuld Landsspítalans við birgja er afgerandi vísbending um að eitthvað mikið sé að.

Staðan á íslenskum lyfjamarkaði er einföld.  Ríkjandi ástand er fákeppni á framboðshliðinni og jafnvel einokun hvað varðar framboð á einstökum lyfjum. Þetta ástand hefur komist á með tilstuðlan stjórnvalda. Að mestu leiti er þar um að kenna máttleysi Samkeppnisstofnunar sem hefur heimilað allt of marga samruna í geiranum en þess ber þó að geta að Samkeppnisstofnun starfar eftir lögum sem eru ekki beint til þess fallin að efla samkeppni í íslensku viðskiptalífi að neinu marki. Þetta gerir lyfjafyrirtækjum kleyft að halda uppi lyfjaverði, takmarka framboð ódýrari samheitalyfja, og setja ómælda fjármuni í kynningar og annan áróður fyrir lyfjageirann. Greinarhöfundur hefur sjálfur setið nokkur Þorrablót deildar einnar á Landspítalanum sem voru kostuð af Thorarensen lyf þar sem að loknu súru hrútspungaáti voru nýju (og dýru) lyfin kynnt mátulega slompuðum blóturum. Áhugavert væri að sjá staðfesta fylgni slíkra kynninga og aukinnar lyfjasölu því þar hlyti að vera um nánast kraftaverk að ræða í markaðssetningu. Það sem er þó vitað er að einhver borgar brúsann.

Það er hinsvegar stjórnenda Landspítalans og heilbrigðisráðherra að bregðast við þessu af fullri ákveðni og það er skylda þeirra að gera betur. Það er ekki sérlega flókið mál. Lyfjanotkun Landspítalans er að langmestu leiti þekkt stærð sem breytist milli ára eftir ákveðnum reglum sem að mestu hafa að gera með lýðfræðilega þróun, þ.e. breytingu á aldurssamsetningu þjóðarinnar. Það koma að vísu inn í aðrir þættir svo sem aukning umferðarslysa vegna aukinnar umferðar, aukning ofbeldismála vegna aukinnar áfengis- og fíkiefnaneyslu, aukin fæðingartíðni vegna nýrra laga um fæðingarorlof o.s.frv. Hér er þó ekki um neinar flóknar breytingar að ræða sem góðir stjórnendur geta ekki reiknað með að mestu leyti. Tilkoma nýrra lyfja er einnig þáttur sem eykur lyfjakostnað en erfitt er að trúa því að sá kostnaður taki miklum breytingum frá ári til árs og líklegt er að stjórnendur spítalans fylgist einmitt sérstaklega vel með þessari þróun.

Það virðist því nokkuð augljóst mál að spítalinn, með þessar upplýsingar undir höndum, hætti að skipta beint við innlend lyfjafyrirtæki og einfaldlega bjóði út öll lyfjakaup spítalans á evrópska efnahagssvæðinu. Slíka samninga mætti jafnvel gera til nokkurra ára í senn með endurskoðunar ákvæðum til að tryggja enn lægra verð. Þar er einnig hægt að tryggja að notkun samheitalyfja ráðist ekki af hagsmunun eins fyrirtækis. Slík breyting gæti að vísu kallað á stofnun einhvers konars lyfjabirgðastöðvar á spítalanum en með hliðsjón af tíðni flugferða til og frá landinu þyrfti sú stöð ekki að vera stór.

Það er oft talað um að leiða fram markaðslögmálin þegar kemur að heilbrigðismálum. Vitað er að lögmál framboðs og eftirspurnar geta ekki virkað þegar kemur að lækningahliðinni vegna þeirrar sérstöðu sem bæði notandi og veitandi þjónustunnar eru í. Það þýðir þó ekki að geirinn falli aldrei undir markaðslögmálin og tilfelli lyfjakostnaðar er eitt dæmi um hvar spítalinn getur nýtt sér evrópska efnahagssvæðið og tíðar samgöngur til að ná niður lyfjakostnaði. Slíkt á örugglega við um fleiri þætti í innkaupum Landspítalans, sem og annarra heilbrigðisstofnana.

Hvað varðar svo þáttöku ríkisins í lyfjakostnaði almennings utan spítalans þá virðist það einnig nokkuð borðliggjandi, þótt flóknara sé, að þar er einnig pottur brotinn. Tvær lyfsölukeðjur nánast ráða markaðinum, lyfjainnflutningur er á fárra hendi og framboð samheitalyfja lítið. Hér er einnig rétt að heilbrigðisyfirvöld nýti sér markaðslögmálin og noti allt evrópska efnahagssvæðið til innkaupa. Einfalt mál er að finna út stærð markaðarins og gera ráð fyrir ákveðnum frávikum í útboðslýsingu sem og að gera þá kröfu við útboð allra lyfja sem heilbrigðiskerfið greiðir niður að það fylgi með nauðsynlegar upplýsingar á íslensku ef þörf er á. Einnig er hægt að óska eftir samstarfi við önnur Norðurlönd og halda samnorrænt útboð á evrópska efnahagssvæðinu eða jafnvel á heimsvísu.

Varðandi dreifingu lyfja til notenda utan sjúkrastofnana þá er engin þörf á mörg hundruð fermetra verslunum til að afgreiða lyf eins og lenskan er í dag. Það eru starfandi sjúkrahús og heilsugæslustöðvar í öllum landshlutum og þær stofnanir geta hæglega tekið að sér afgreiðslu lyfja.

Hvað varðar kynningu á lyfjum fyrir lækna þá er ekki að efa að lyfjafyrirtæki í Evrópu eða annars staðar kunna einnig að standa að kynningarmálum, þó heiðin blót séu e.t.v. ekki þeirra vettvangur.

Það sem er áríðandi að hafa í huga hér er að nýta markaðslögmálin í þágu almennings og stofnana samfélagsins en ekki aftengja þau í þágu fárra fyrirtækja og eigenda þeirra.

Höfundur er hagfræðingur.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd »

Engar athugasemdir ennþá.

RSS feed for comments on this post. TrackBack URI

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

Bloggaðu hjá WordPress.com.

%d bloggurum líkar þetta: