Samtök um lýðræði og almannahag

Stríð fyrir þig, anno 2003

Grein þessi fékkst ekki birt í Morgunblaðinu á sínum tíma. Að sögn ristjórnarfulltrúans “er allt vitlaust á ritstjórninni út af þessu andskotans stríði og ekki hægt að birta neitt.” Greinin birtist síðar í Fréttablaðinu.

Fyrir rétt um 43 árum fæddist höfundur þessarar greinar í Bandaríkjum norður Ameríku (BNA). Sú þjóð hafði þá, í framhaldi af góðum árangri í síðari heimstyrjöldinni, talið það skyldu sína að skerast í leikinn á Kóreu-skaga og þar hélt hún úti stríði í um 3 ár á forsendum frelsis og án réttmætrar aðkomu Sameinuðu þjóðanna (SÞ). McCarthy stóð á hliðarlínunni.

Þjóðin var þá að hlaða undir hina svokölluðu Dómínó kenningu sem síðar varð skálkaskjól það er réttlætti áframhaldandi hernaðaríhlutun í suð-austur Asíu og árið 1964 sviðsetti hún Tonkin-flóa “atvikið” sem notað var sem átylla til hernaðar í Víetnam. Þá voru rökin þau að “hinn frjálsi heimur” yrði að verjast á öllum vígstöðvum gegn “heimsvaldastefnu alræðisstjórnar kommúnista” og ógn þeirra við “frið og frelsi”. Því fór sem fór og þegar upp var staðið höfðu rúmlega 58 þúsund bandarísk ungmenni verið drepin. Nöfn þeirra má nú lesa á u.þ.b. 200 metra löngum vegg, minnismerkinu um Víetnam stríðið í Washington D.C.

Í landi einu í mörg þúsund kílómetra fjarlægð voru menn sem réru öllum árum í stuðningi sínum til réttlætingar þessu stríði. Þótt að níu af hverjum tíu sem dóu væru óbreyttir borgarar, börn, konur, karlar, afar, ömmur, barnabörnin sem ekkert, ekkert höfðu gert á þeirra hlut. Þeir fóru hörðum orðum um þá sem voru ekki sammála og kölluðu þá m.a. óvini hins frjálsa heims. Þessir menn voru íslenskir þingmenn, þeir voru íslenskir ráðherrar, þeir voru ritstjórar Morgunblaðsins. Það sem þeir fjölluðu um sín á milli og á síðum blaðsins var frelsanir óvinaþorpa úr höndum kommúnista. Það sem þeir fjölluðu aldrei um er að hinn 200 metra langi veggur er í raun 10.300 metra langur þegar nöfn “hinna”, þ.e. þeirra þriggja milljóna víetnama sem líka voru drepin eru talin með.

Enn á ný er hafið stríð í nafni frelsis. Nú sem þá eru það ekki börn ráðamanna í BNA sem verða drepin, heldur að stórum hluta háskólanemar hverra eini möguleiki til menntunar á háskólastigi er að ganga í varalið hersins. Nú sem þá verður mest mannfall meðal óbreyttra borgara og níu af hverjum tíu sem deyja verða úr hópi þeirra. Og nú sem þá, í landi einu í mörg þúsund kílómetra fjarlægð eru menn sem róa öllum árum að því að réttlæta þetta stríð. Þeir fara hörðum orðum um þá sem eru ekki sammála. Þessir menn eru íslenskir þingmenn, þeir eru íslenskir ráðherrar, þeir eru ritstjórar Morgunblaðsins.

Þessir menn eru hinir sömu enn í dag þó nöfnin hafi breyst. Þótt níu af hverjum tíu sem munu deyja verði börn, konur, karlar, afar, ömmur, barnabörnin sem ekkert, ekkert hafa gert á þeirra hlut. Þeir halda áfram að leggja til að bandarísk ungmenni verði notuð í verkið. Nú skal drepið í þágu málstaðar sem er svo fráleitur að málsvarar hans hafa skipað sér á bekk með firrtustu mönnum sögunnar. Það sem þeir nú fjalla um sín á milli og á síðum blaðsins eru árásir sem gerðar eru á “skotmörk” (sjá fjölmargar fyrirsagnir og fréttir í Mbl. síðustu daga) og það er rétt og það er gott vegna þess að íslendingar og allur heimurinn er í hættu. Af öllum þeim manngerðum sem búa á þessari jörð er þetta sú huglausasta og grimmasta. Í stað þess að fordæma skipulögð dráp á þúsundum óbreyttra borgara þá taka þeir sér stöðu gegn lífinu og með dauðanum. Í hæfilegri fjarlægð. Ekki nóg með það. Í stað þess að ganga fram sjálfir og senda sína eigin styðja þeir að ungmennum annarra landa verði fórnað. Fremur þægilegt, ekki satt.

Það eru vandfundnir aumari menn en þær bleyður sem nú sitja á ráðherrastólum, á þingmannastólum, á ritstjórastólum og styðja þetta stríð, að ekki sé nú talað um þá stuðningsmenn sem sitja heima í stofu á sínum sjálfvirku “Letiblóðsstólum” og fylgjast með þessum harmleik af tæknilegum áhuga. Þeir hafa aldrei og munu aldrei reka höfuðið upp úr sandinum og viðurkenna viðbjóðinn. Þeir hafa aldrei kynnst af eigin raun þeim mönnum sem dóu. Þeir hafa aldrei kynnst þeim sem snéru aftur með slík ör á sálinni að aldrei bættist skaðinn, ör sem með tímanum sviptu þá fjölskyldunni, vinunum, vitinu og oft lífinu. Slík ör bera allir eftirlifendur stríða hvort sem um er að ræða “sigurvegara” eða “sigraða”. Þetta eru að sjálfsögðu ekki frekar en börnin, “skotmörkin” í fyrirsögnum og fréttum Morgunblaðsins, heldur óþægileg staðreynd sem best er að þegja um.

Stríðið sem nú geisar er eins og önnur stríð, stríð milli góðs og ills, milli þeirra sem vilja frið og þeirra sem vilja ekki frið þar sem hinir stríðsæstu hafa enn á ný fallið í þá gildru hugans að hræðsla þeirra við umheiminn sé rétt. Í Kóreustríðinu voru herdeildir staðsettar á strönd Virginíu-fylkis á austurströnd BNA þar sem dagskipunin var að verjast innrás frá norður-Kóreu. Í Víetnamstríðinu stafaði, samkvæmt Morgunblaðinu, íslendingum stórhætta af norður-Víetnam. Síðast voru það BNA og vestræn menning sem voru í stórhættu vegna Afganistan.

Nú er það Írak. Sú vænissjúka sýn á heiminn sem íslenskir stuðningsmenn þessa stríðs hafa, sýnir okkur hinum hvað þeir eru í raun og veru. Aumkunarverðir, heimóttarlegir sveitamenn með varanlega minnimáttarkennd gagnvart öllum heiminum. Þeirra endalausu hártoganir á lögum og ályktunum til réttlætingar stríðinu opinbera einnig öfgakendustu birtingarmynd óttans, lygina. Sú endalausa fylgispekt íslendinga við BNA opinberar einnig hvort tveggja, hina undirokuðu þjóð sem bundin er á klafa hermangsins sem og hina yfirgengilegu vanþekkingu á sögu og samfélagi þeirrar þjóðar sem þeir hafa valið sem sinn helsta bandamann. Þetta hefur gert það að verkum að helstu “afrek” íslenskrar utanríkisstefnu eru blóði drifin og svo heimskuleg að engu tali tekur. Nægir þar að nefna “afrekið” er íslendingum var att á foraðið af BNA og þeir látnir vera í forgöngu fyrir stofnun Ísralesríkis. “Afrek” þetta hvílir nú undir svo þykku lagi af storknuðu blóði að aldrei er minnst á. Ekki er heldur ýkja langt síðan að utanríkisráherra var sendur út af örkinni í opinbera heimsókn til Ísrael þar sem hann faðmaði Ariel Sharon, hvers verk hafa verið fjöldamorð hér áður fyrr og dráp á börnum á vorum dögum. Í síðustu viku tókst hermönnum hans m.a. að skjóta til bana tveggja ára gamla stúlku. Tveggja ára gamla stúlku!

Það hlálega er að öll þessi “afrek” og allur þessi stuðningur við BNA er og hefur verið óþarfur. Íslendingar hafa alla tíð vel getað haldið áfram sem aðilar að vestrænu samstarfi og NATÓ samstarfi alveg eins og fjölmörg önnur ríki hafa gert en án þessarar fylgispektar.

Og nú hafa menn aftur “tekið sér stöðu”. Og aftur á upplognum forsendum. Og aftur er með innantómum loforðum stuðningur veittur við stríð. Stríð sem eins og öll hin stríðin hafa engan sigurvegara þegar upp er staðið. Stríð sem eins og öll hin stríðin stafa af heimsku og illsku allra sem fyrir stríðið gerðu ekki skyldu sína og tóku afdráttarlausa stöðu með lífinu. “Lýðræði og uppbygging í Írak” hljómar vel. Fögur orð forsætisráðherrans eru sorgleg endurómun á þekktustu, hlálegustu og í raun firrtustu ummælum bandarísks foringja úr stríðinu í Vietnam sem sagði er hann hafði lagt enn eitt “óvinaþorpið” í rúst. “In order to save the village, we had to destroy it”.

Þriðjudaginn 25. mars mun ég mæta í bandaríska sendiráðið hér í Reykjavík, afhenda vegabréf mitt og afsala mér bandarískum þegnrétti. Það viti firrta samfélag sem hefur ofbeldisdýrkun, stríð og aftökur til vegs og virðingar, sem fyrirlýtur og misnotar alþjóðastofnanir, sem brýtur alþjóðalög, og sem í gegnum tíðina ber ábyrgð á tilefnislausum dauða milljóna og aftur milljóna manna, það samfélag getur ekki verið mitt, ekki lengur. Og þótt Ísland, í þínu nafni lesandi góður, sé á sama báti og BNA í þessu stríði eins og oft áður, munum við þó vonandi, með samstilltu átaki, ná að stöðva þessa utanríkisstefnu andskotans, þó ekki verði fyrr en í kosningunum þann 10. maí næstkomandi. Við verðum.

Höfundur er hagfræðingur og með bandarískt og íslenskt ríkisfang.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd »

Engar athugasemdir ennþá.

RSS feed for comments on this post. TrackBack URI

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.

%d bloggurum líkar þetta: